Lífsferill

1874-1884: Ungdómur

Einar Jónsson fæddist 11. maí 1874 og dó 18. október 1954 áttræður að aldri. Hann var íslenskur myndhöggvari, brautryðjandi á sínu sviði.

Einar fæddist á Galtafelli í Hrunamannahreppi þann 11. maí samkvæmt foreldrum sínum en 12. maí samkvæmt kirkjubókum. Faðir hans, Jón Bjarnason var bóndi þar, og kona hans Gróa Einarsdóttir húsmóðir. Einar átti þrjú systkini sem uxu úr grasi, Jakob, Bjarna og Guðnýu. Einar var skírður í höfuðið á bróður sínum sem lést ungur að árum.

Einar einsetti sér snemma á ævinni að gerast myndhöggvari og þótti það sérstök ákvörðun fyrir ungan dreng úr sveitinni. Á bænum Hlíð í Eystrihrepp bjó Lýður Guðmundsson, bróðir Þorsteins Guðmundssonar, málara og þar komst Einar í kynni við málaralist. Þorsteinn málaði altarismynd af Jesús Kristi fyrir Ólafsvallakirkju sem var byggð 1897.

Einar átti einnig gestkvæmt að Stóra-Núpi þar sem séra Valdimar Briem og Ólöf kona hans bjuggu. Í minningum sínum segir Einar um Ólöfu:

Hvatning þessarar göfugu konu var fyrsta hjálpin, sem mér var veitt á listabraut minni, og uppörvun sú og hughreysting, sem fólst í orðum hennar, hjó bönd af veikum vængjum. Mér fannst ég geta flogið.

Séra Valdimar sannfærði föður Einars um að senda Einar út í listnám og fékk Björn Kristjánsson til þess að hjálpa Einari að komast þangað.